Spenna í lokin í Þorlákshöfn

Þór Þorlákshöfn tapaði naumlega þegar Tindastóll kom í heimsókn í Höfnina í Domino’s deild karla í körfubolta í kvöld. Lokatölur urðu 85-89.

Heimamenn byrjuðu leikinn vel en Tindastóll svaraði fyrir sig í 2. leikhluta. Staðan var 39-39 í leikhléi. Stólarnir voru sterkari í 3. leikhluta en í upphafi þess fjórða sóttu Þórsarar í sig veðrið.

Þór jafnaði 80-80 þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir af leiknum en þá komu níu stig í röð frá Tindastóli. Þórsliðið klóraði í bakkann á lokamínútunni en gafst ekki tími til að vinna niður muninn.

Emil Karel Einarsson var bestur í liði Þórs í kvöld og stigahæstur með 19 stig. Tindastóli gekk sömuleiðis illa að stöðva Davíð Arnar Ágústsson sem skoraði 16 stig í leiknum.

Þorlákshafnaliðið situr því áfram í 9. sæti deildarinnar með 14 stig en Tindastóll er í 4. sæti með 26 stig.

Tölfræði Þórs: Emil Karel Einarsson 19/8 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 16, Snorri Hrafnkelsson 13/5 fráköst, Ólafur Helgi Jónsson 12/5 fráköst, Halldór Garðar Hermannsson 11/6 fráköst/5 stoðsendingar, Chaz Calvaron Williams 10, DJ Balentine II 4.

Fyrri greinSelfoss valtaði yfir ÍR
Næsta greinSortinn skelfur