Selfoss fékk skell – Hanna komin út á gólfið

Selfyssingar fengu slæman skell þegar keppni hófst aftur í Olís-deild kvenna í handbolta í dag. Selfoss sótti topplið Vals heim að Hlíðarenda og tapaði 30-14.

Eins og tölurnar gefa til kynnar voru yfirburðir Valsliðsins talsverðir en staðan var 13-7 í leikhléi. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir spilaði sinn fyrsta leik fyrir Selfoss síðan hún sleit krossband í mars í fyrra.

Perla Ruth Albertsdóttir var markahæst Selfyssinga í dag með 4 mörk, Ída Bjarklind Magnúsdóttir skoraði 3, Hrafnhildur Hanna, Hulda Dís Þrastardóttir og Harpa Sólveig Brynjarsdóttir skoruðu allar 2 mörk og Agnes Sigurðardóttir 1.

Selfoss er áfram í 6. sæti deildarinnar með fimm stig.

Fyrri greinNorðangarri í Frystikistunni
Næsta greinSamningur um fjallkonuna festur í sessi