Naumur sigur Hamars á FSu

Hamar hafði betur þegar liðið mætti FSu á Iðu á Selfossi í Suðurlandsslag í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Lokatölur voru 90-92 eftir spennandi lokakafla.

FSu byrjaði betur í leiknum og komst í 10-5 en FSu svaraði fyrir sig á lokamínútum 1. leikhluta og leiddi 17-20 að honum loknum. Áfram var jafnræði með liðunum í 2. leikhluta en Hamar hafði undirtökun og staðan var 39-43 í leikhléi.

Hvergerðingar voru sprækir í upphafi seinni hálfleiks og náðu átta stiga forystu, 42-50. Þá kom frábær kafli hjá heimamönnum sem gerðu 16-3 áhlaup og breyttu stöðunni í 58-53. Hamar skoraði hins vegar síðustu fimm stigin í 3. leikhluta og fyrstu sex stigin í 4. leikhluta og þá var staðan orðin 66-74.

FSu elti allan 4. leikhlutann og munurinn var yfirleitt tvö stig, en heimamönnum tókst ekki að brúa bilið og á lokamínútunni hittu þeir illa og Hamarsmenn fögnuðu sigri.

Larry Thomas var bestur í liði Hamars með 18 stig og 9 fráköst en margir Hvergerðingar skiluðu góðu framlagi. Hjá FSu var Antowine Lamb bestur með 26 stig og 17 fráköst en Ari Gylfason átti einnig góðan leik.

Hamar er í 3. sæti deildarinnar með 20 stig en FSu er í 8. sæti með 2 stig þegar fjórtán umferðum er lokið.

Tölfræði FSu: Antowine Lamb 26/17 fráköst, Ari Gylfason 25/9 fráköst, Florijan Jovanov 15/5 fráköst, Hlynur Hreinsson 8/6 stoðsendingar, Maciek Klimaszewski 6/4 fráköst, Haukur Hreinsson 5, Birkir Víðisson 3, Sveinn Hafsteinn Gunnarsson 2.

Tölfræði Hamars: Julian Nelson 20/5 fráköst, Larry Thomas 18/9 fráköst/7 stoðsendingar, Dovydas Strasunskas 16, Smári Hrafnsson 14, Ísak Sigurðarson 10, Jón Arnór Sverrisson 6/5 fráköst/6 stoðsendingar, Þorgeir Freyr Gíslason 3/5 fráköst/3 varin skot, Kristinn Ólafsson 3, Arnór Ingi Ingvason 2.

Fyrri greinMagdalena framlengir til þriggja ára
Næsta greinViðar skoraði eftir þrettán sekúndur