Árborg og Umf. Selfoss semja til fimm ára

Í desember síðastliðnum var skrifað undir nýjan þjónustu- og styrktarsamning milli Sveitarfélagsins Árborgar og Ungmennafélags Selfoss. Samningurinn er til fimm ára og nær yfir alla styrki sveitarfélagsins til Umf. Selfoss.

Þetta er í fyrsta skipti sem ungmennafélagið og sveitarfélagið gera með sér fimm ára langtímasamning, en undanfarin ár hefur verið samið til eins árs í einu.

Að sögn Gissurar Jónssonar, framkvæmdastjóra Umf. Selfoss, getur félagið skipulagt sitt starf með markvissari hætti í ljósi þess að greiðslur til félagsins næstu fimm árin liggja fyrir í samningnum.

„Það er ekki um að ræða nein ný verkefni í samningnum en öll eldri verkefni halda áfram enda hver um sig mikilvæg í samstarfi beggja aðila. Fyrir utan hækkanir sem eru tilkomnar vegna hækkunar á almennu verðlagi í landinu er verulega bætt í styrki tengda rekstri félagsins, sér í lagi styrki sem opna á möguleika þess að ráða starfsmenn fyrir einstaka deildir,“ segir Gissur.

Þá hækkar sérstakur rekstrarstyrkur fyrir meistaraflokka félagsins jafnt og þétt á samningstímanum og greiðslur vegna fyrirmyndafélagsins haldast óbreyttar. Lögð er meiri áhersla á að allar deildir fylgi áherslum ÍSÍ sem fyrirmyndafélag og viðhaldi þessum gæðastimpli bæði hvað varðar innra og ytra starf.

Samhliða undirritun þjónustusamningsins var skrifað undir rekstrarsamning fyrir Selfossvöll. Hann er einnig til fimm ára og felur í sér framhald á núverandi fyrirkomulagi að Umf. Selfoss sjái um rekstur og umsjón Selfossvallar. Knattspyrnudeild félagsins hefur séð um það verkefni undanfarin ár með sérstöku samkomulagi við aðalstjórn Umf. Selfoss.

Skrifað var undir samningana í upphafi verðlaunahátíðar Umf. Selfoss en undir samninginn rituðu Kjartan Björnsson og Ásta Stefánsdóttir fyrir hönd bæjarstjórnar Árborgar og Guðmundur Kr. Jónsson og Gissur Jónsson fyrir hönd Umf. Selfoss.

Fyrri greinNjarðvíkingar sterkari í Ljónagryfjunni
Næsta greinFSu áfram í Gettu betur – ML úr leik