Stefán fjórðungsmeistari í glímu eftir fimm ára hlé

Fjórðungsglíma Suðurlands var haldin á Laugalandi í Holtum þann 14. desember síðastliðinn. Um þrjátíu keppendur frá fjórum aðildarfélögum HSK tóku þátt.

Keppt var í flokkum 10 ára og yngri, 11 ára, 12 ára, 13 ára, 14 ára, 15 ára og svo í karlaflokki. Keppni í kvennaflokki féll niður vegna þátttökuleysis. Mótið gekk vel, en keppt var á tveimur völlum samtímis.

Keppninni lauk með viðureign Þjótandakeppendana Stefáns Geirssonar og Jóns Gunnþórs Þorsteinssonar um titilinn í karlaflokki. Stefán hafði betur og endurheimti því fjórðungstitilinn eftir nokkurt hlé. Hann hefur ekki tekið þátt undanfarin ár, en hann vann keppnina síðast þegar hann keppti árið 2012.

Þess má geta að Skjaldarglíma Skarphéðins og Bergþóru hefur ekki farið fram í ár. Til stendur að keppnin fari fram á Laugarvatni fimmtudaginn 28. desember kl. 13:00.

Fyrri greinFærri einingar töpuðust
Næsta greinJólatré ársins er úr Arnarheiði