Sindri Seim setti Íslandsmet í 200 metra hlaupi

Sindri Freyr Seim Sigurðsson úr Umf. Heklu setti Íslandsmet í 200 metra hlaupi í 14 ára flokki á Aðventumóti Ármanns síðastliðinn laugardag.

Hann hljóp á 24,50 sek. og bætti þriggja ára gamalt Íslandsmet Helga Davíðs Péturssonar úr UFA um 0,08 sek. Sindri hefur þar með þríbætt innanhúss HSK metið í 200 metra hlaupi í sínum flokki í ár, en tæplega mánaðargamalt HSK met hans var 24,61 sek. Þess má geta að Sindri hefur samtals sett 11 HSK met í einstaklingsgreinum í ár.

Dagur Fannar Einarsson sem keppir fyrir Selfoss setti HSK met í 400 metra hlaupi á mótinu þegar hann hljóp hringina tvo á 55,05 sek. Jónas Grétarsson átti gamla metið, en Jónas hljóp í mars sl. á 55,79 sek.

Fleiri keppendur af sambandsssvæði HSK tóku þátt og náðu einnig góðum árangri, þó fleiri met hafi ekki litið dagsins ljós.

Fyrri grein„Hlakka til að eyða jólunum með allskonar fólki“
Næsta grein„Risastór áfangi fyrir ungmennafélagið og sveitarfélagið“