Þór vann Þór í Þorlákshöfn

Þorlákshafnar-Þórsarar tóku á móti nöfnum sínum í Þór frá Akureyri í mikilvægum leik í botnbaráttu Domino's-deildar karla í körfubolta í kvöld.

Heimamenn unnu þar mjög öruggan sigur og skildu Akureyringana eftir í neðri hlutanum með 4 stig í 11. sæti. Þorlákshafnarliðið getur hins vegar farið að horfa upp töfluna, því liðið er nú með 8 stig í 9. sæti og stutt í næstu lið fyrir ofan.

Þór Þ byrjaði leikinn í kvöld af miklum krafti og leiddi að loknum 1. leikhluta, 24-9. Staðan í hálfleik var 50-27 og úrslitin nánast ráðin. Heimamenn höfðu örugg tök á leiknum í seinni hálfleik og forskot þeirra jókst jafnt og þétt. Lokatölur 99-62.

DJ Balentine II var besti maður vallarins, skoraði 30 stig fyrir Þór en margir leikmenn Þórs Þ voru með gott framlag í kvöld.

Tölfræði Þórs: DJ Balentine II 30/5 stoðsendingar, Halldór Garðar Hermannsson 13/5 stoðsendingar/7 stolnir, Emil Karel Einarsson 13/4 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 11/4 fráköst, Óli Alexandersson 10/5 fráköst/6 stoðsendingar, Ólafur H. Jónsson 7/11 fráköst, Adam Ásgeirsson 7/4 fráköst, Styrmir Þrastarson 5, Benjamín Benjamínsson 2, Benedikt Hjarðar 1/8 fráköst.

Fyrri greinByrjaði að skrifa ljóð fimm ára
Næsta greinHamar stimplar sig inn í toppbaráttuna