Hamar skellti toppliðinu – Gnúpverjar töpuðu

Hamar vann frábæran útisigur á toppliði Skallagríms í 1. deild karla í körfubolta í gær. Gnúpverjar töpuðu heima gegn Vestra.

Leikur Skallagríms og Hamars var jafn í fyrri hálfleik en staðan í leikhléi var 50-51, Hamri í vil. Hvergerðingar voru síðan sterkari í síðari hálfleik, byrjuðu á frábæru áhlaupi í 3. leikhluta og unnu að lokum 82-104.

Julian Nelson var stigahæstur hjá Hamri með 31 stig og 9 fráköst. Larry Thomas átti frábæran leik, skoraði 22 stig, tók 8 fráköst og sendi 7 stoðsendingar. Þorgeir Freyr Gíslason skoraði 16 stig og Smári Hrafnsson 11.

Gnúpverjar byrjuðu illa
Fyrsti leikhlutinn var Gnúpverjum erfiður gegn Vestra en staðan var 17-31 að honum loknum. Gnúpverjar réttu sinn hlut í 2. leikhluta og staðan í hálfleik var 44-51. Vestramenn byrjuðu betur í seinni hálfleik og þrátt fyrir góðan sprett undir lokin náðu Gnúpverjar ekki að knýja fram sigur. Lokatölur 85-96.

Everage Richardson var eins og oft áður besti maður vallarins, skoraði 37 stig og tók 9 fráköst auk 6 stoðsendinga. Hraunar Karl Guðmundsson skoraði 14 stig og Ægir Bjarnason 10. Þá var Tómas Steindórsson sterkur undir körfunni með 12 fráköst og þrjú stig að auki.

Hamar er nú í 5. sæti deildarinnar með 14 stig, eins og Breiðablik og Vestri sem eru í 3.-4. sæti. Gnúpverjar eru í 7. sætinu með 4 stig.

Fyrri greinGunnar ráðinn verkefnastjóri
Næsta greinStigasöfnun FSu gengur illa