Hvergerðingar stóðust lokaáhlaup ÍA

Hamar vann góðan sigur á botnliði ÍA í hörkuleik í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Lokatölur í Frystikistunni í Hveragerði urðu 95-88.

Hamar byrjaði leikinn af krafti en átti svo skelfilegan 2. leikhluta þar sem liðið skoraði aðeins níu stig. Staðan í hálfleik var 43-45, gestunum í vil. Hvergerðingar náðu aftur tökum á leiknum í upphafi síðari hálfleiks þar sem þeir lögðu grunninn að sigrinum með góðum leik í sókn og vörn. Staðan var 70-63 þegar 4. leikhlutinn hófst og þar önduðu Skagamenn hressilega ofan í hálsmálið á Hamarsmönnum án þess þó að ná að komast yfir. Hamar sigraði að lokum 95-88.

Julian Nelson og Jón Arnór Sverrisson áttu mjög góðan leik fyrir Hamar og sömuleiðis var Larry Thomas með drjúgt framlag að vanda.

Hamar er í 5. sæti 1. deildarinnar með 12 stig.

Tölfræði Hamars: Julian Nelson 29/8 fráköst, Larry Thomas 21/5 stolnir, Jón Arnór Sverrisson 16/12 fráköst/6 stoðsendingar, Þorgeir Freyr Gíslason 8/5 fráköst, Oddur Ólafsson 8, Dovydas Strasunskas 7, Ísak Sigurðarson 6/6 fráköst.

Fyrri greinÞórsarar uppúr fallsæti
Næsta greinHeimildamyndin „Heimsmethafinn í vitanum“ sýnd á Selfossi