Þórsarar uppúr fallsæti

Þór Þorlákshöfn vann nokkuð öruggan sigur á botnliði Hattar á útivelli þegar liðin mættust í Brauð og co. höllinni á Egilsstöðum í Domino's-deild karla í körfubolta í kvöld.

Fyrri hálfleikur var jafn og staðan í hálfleik 35-36. Þórsarar voru hins vegar sterkari í seinni hálfleiknum og gerðu endanlega út um leikinn í 4. leikhluta. Þar byrjaði DJ Balentine II á því að skora tólf stig í röð fyrir Þór en hann skoraði nítján stig í síðasta fjórðungnum og tryggði sínum mönnum sigurinn, 71-80.

Balentine var bestur í liði Þórs í kvöld en Emil Karel Einarsson átti einnig mjög fínan leik.

Með sigrinum lyftu Þórsarar sér upp úr fallsæti í fyrsta skipti í vetur og eru nú með 6 stig í 9. sæti deildarinnar.

Tölfræði Þórs: DJ Balentine II 34/7 stoðsendingar, Emil Karel Einarsson 23/4 fráköst, Halldór Garðar Hermannsson 8/9 fráköst, Magnús Breki Þórðason 5, Davíð Arnar Ágústsson 4, Ólafur Helgi Jónsson 4/6 fráköst, Óli Ragnar Alexandersson 2/6 fráköst/6 stoðsendingar/5 stolnir.

Fyrri greinEnn tapar FSu
Næsta greinHvergerðingar stóðust lokaáhlaup ÍA