Enn tapar FSu

Ófarir FSu liðsins í 1. deild karla í körfubolta halda áfram en í kvöld tapaði liðið naumlega á heimavelli þegar Snæfell kom í heimsókn, 98-102.

FSu var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og staðan var 59-51 í leikhléi. Þriðji leikhluti var í járnum en Snæfell náði 11-1 áhlaupi í upphafi 4. leikhluta og komst yfir, 85-87.

Lokamínúturnar voru æsispennandi en síðustu 90 sekúndurnar náði FSu ekki að skora körfu. Á meðan skoraði Snæfell síðustu átta stig leiksins og breytti stöðunni úr 98-94 í 98-102.

Ari Gylfason átti mjög góðan leik fyrir FSu í kvöld og sömuleiðis lét Hlynur frændi hans Hreinsson vel til sín taka. Það dugði ekki til þegar upp var staðið.

FSu er áfram í næst neðsta sæti 1. deildarinnar með 2 stig.

Tölfræði FSu: Ari Gylfason 30/5 fráköst/6 stoðsendingar, Hlynur Hreinsson 20/4 fráköst, Jett Speelman 16/6 fráköst, Florijan Jovanov 14/8 fráköst, Maciek Klimaszewski 10/7 fráköst, Ragnar Gylfason 6, Sveinn Gunnarsson 2/4 fráköst.

Fyrri grein„Orkan og krafturinn til fyrirmyndar“
Næsta greinÞórsarar uppúr fallsæti