„Orkan og krafturinn til fyrirmyndar“

Selfoss vann öruggan sigur þegar Stjörnumenn komu í heimsókn í Vallaskóla í Olísdeild karla í handbolta í kvöld. Lokatölur urðu 31-26.

„Orkan og krafturinn í liðinu var til fyrirmyndar í kvöld. Ég var að spila mikið á sömu mönnum í vörn og sókn allan tímann og var ánægður að sjá útkomuna. Að geta spilað svona vörn og góðan sóknarleik á sömu mönnum er mjög gott. Andstæðingurinn var góður í kvöld, og betri á köflum en það sem ég er ánægður með er að orkan kemur alltaf og við náðum að spila þetta vel í lokin,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Leikurinn var jafn fyrstu tíu mínúturnar en þá tóku Selfyssingar öll völd og leiddu með sex mörkum í hálfleik 16-10. Einhver værukærð var þó yfir liðinu í upphafi síðari hálfleiks því Stjarnan náði að minnka muninn í tvö mörk og staðan var 22-20 þegar rúmar tíu mínútur voru eftir. Þá gerðu Selfyssingar aftur áhlaup og kláruðu leikinn af miklum krafti.

Einar Sverrisson og Haukur Þrastarson voru markahæstir Selfyssinga með 7 mörk og áttu báðir frábæran leik. Hergeir Grímsson og Atli Ævar Ingólfsson skoruðu 5 en Hergeir var öflugastur Selfyssinga í vörninni. Teitur Örn Einarsson skoraði 4, Árni Steinn Steinþórsson 2 og Alexander Egan 1.

Helgi Hlynsson varði 8 skot í marki Selfoss og Sölvi Ólafsson 2.

Fyrri greinKristófer Páll genginn til liðs við Selfoss
Næsta greinEnn tapar FSu