Annar sigur Þórsara

Þór Þorlákshöfn vann sinn annan sigur í Domino's-deild karla í körfubolta í kvöld þegar Valsmenn komu í heimsókn til Þorlákshafnar.

Gestirnir byrjuðu betur í leiknum en Þórsarar svöruðu vel fyrir sig í 2. leikhluta, spiluðu hörkuvörn og leiddu 37-29 í leikhléi.

Valsmenn voru mun ákveðnari í upphafi síðari hálfleiks og komust yfir, 39-41, eftir aðeins rúmar tvær mínútur. Þá kviknaði aftur neisti hjá heimamönnum og þrír þristar í röð frá Davíð Arnari Ágústssyni komu þeim í 51-46. Þórsarar litu ekki til baka eftir þetta og héldu forystunni til leiksloka.

Ólafur Helgi Jónsson var bestur í liði Þórs í kvöld, skoraði 15 stig og tók 10 fráköst.

Þrátt fyrir sigurinn eru Þórsarar áfram í 11. sæti deildarinnar, nú með 4 stig.

Tölfræði Þórs: DJ Balentine II 23, Ólafur Helgi Jónsson 15/10 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 14, Emil Karel Einarsson 14/6 fráköst, Adam Eiður Ásgeirsson 5, Jesse Pellot-Rosa 3/4 fráköst, Óli Ragnar Alexandersson 2/4 fráköst, Halldór Garðar Hermannsson 2/9 fráköst/6 stoðsendingar.

Fyrri greinByssur teknar af rjúpnaskyttum
Næsta greinKannaðist ekki við innbrot og gat ekki útskýrt þýfið