Hamar skreið framúr í lokin

Hamar vann nauman sigur á Gnúpverjum í grannaslag í 1. deild karla í körfubolta, þegar liðin mættust í Frystikistunni í Hveragerði í gærkvöldi.

Gnúpverjar byrjuðu betur í leiknum og leiddu að loknum 1. leikhluta, 21-27. Annar leikhluti var í járnum og staðan í leikhléi 42-46. Hamar byrjaði betur í seinni hálfleik og komst fljótlega yfir. Gnúpverjar svöruðu hins vegar vel fyrir sig í upphafi 4. leikhluta, með 2-15 áhlaupi, og náðu sjö stiga forystu, 71-78

Þegar þrjár mínútur voru eftir af leiknum höfðu Gnúpverjar fimm stiga forskot, 79-84. Þeim tókst hins vegar ekki nema að skora þrjú stig á síðustu þremur mínútunum á meðan Larry Thomas kláraði leikinn fyrir Hamar. Thomas skoraði síðustu níu stig Hamars í leiknum og tryggði þeim þriggja stiga sigur, 90-87.

Everage Richardson var bestur í liði Gnúpverja með 31 stig og Atli Örn Gunnarsson átti einnig fínan fyrsta leik fyrir Gnúpverja. Hjá Hamri var Larry Thomas öflugastur, og hann reyndist gríðarmikilvægur á lokasprettinum.

Með sigrinum fór Hamar upp í 4. sæti deildarinnar með 10 stig.

Tölfræði Hamars: Larry Thomas 25/11 fráköst, Julian Nelson 14/8 fráköst, Þorgeir Freyr Gíslason 12/5 fráköst, Guðjón Ágúst Guðjónsson 12/7 stoðsendingar, Oddur Ólafsson 12/7 fráköst, Mikael Rúnar Kristjánsson 7, Ísak Sigurðarson 5, Smári Hrafnsson 3.

Tölfræði Gnúpverja: Everage Richardson 24/10 fráköst/11 stoðsendingar, Ægir Hreinn Bjarnason 16, Elvar Sigurðsson 14, Atli Örn Gunnarsson 13/9 fráköst, Eyþór Ellertsson 10, Tómas Steindórsson 4/7 fráköst, Hraunar Karl Guðmundsson 4, Hákon Már Bjarnason 2, Garðar Pálmi Bjarnason 6 fráköst.

Fyrri greinMílan gaf eftir á lokakaflanum
Næsta greinFyrsti sigur FSu í vetur