B.O.B.A. hjá Selfyssingum

Elvar Örn Jónsson var frábær í kvöld og skoraði 7 mörk. Ljósmynd/Jóhannes Eiríksson

Selfoss vann ótrúlegan sigur á Haukum í Olís-deild karla í handbolta í Schenker-höllinni í Hafnarfirði í kvöld. Eftir dramatískan lokakafla urðu lokatölurnar 23-24.

Leikurinn var jafn fyrstu tíu mínúturnar en staðan var þá 3-3. Þá tóku Haukarnir öll völd á vellinum og skoruðu átta mörk gegn einu næstu fimmtán mínúturnar. Staðan var 11-4 þegar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik en Selfoss klóraði í bakkann í lokin og leikar stóðu 13-8 í leikhléi.

Haukar komust í 16-10 í upphafi síðari hálfleiks en þá tók við frábær kafli Selfyssinga sem byrjuðu að B.O.B.A. á mark Hauka og skoruðu sjö mörk í röð á skömmum tíma. Staðan var orðin 16-17 þegar aðeins þrettán mínútur voru liðnar af síðari hálfleiknum.

Eftir það var jafnt á öllum tölum upp í 23-23 þegar rúm mínúta var eftir af leiknum. Alexander Már Egan kom Selfyssingum í 23-24 þegar hálf mínúta var eftir af leiknum og Haukar tóku strax leikhlé og stilltu upp lokasókninni. Sóknin skilaði skotfæri en Selfyssingum til mikillar gleði fór boltinn í stöngina. Ótrúlegur sigur Selfyssinga sem eru nú jafnir Haukum að stigum í 3.-4. sæti deildarinnar.

Elvar Örn Jónsson var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk, Haukur Þrastarson skoraði 5, Hergeir Grímsson og Teitur Örn Einarsson 4, Alexander Már Egan 3 og Atli Ævar Ingólfsson 1.

Selfyssingar fengu ekki góða markvörslu í fyrri hálfleik en í þeim síðari var Sölvi Ólafsson í rammanum og varði 7 skot. Anadin Suljakovic varði 2 skot í fyrri hálfleik.

Fyrri greinHelstu málaflokkar Dögunar
Næsta greinGnúpverjar komnir á blað