Öll sunnlensku liðin úr leik

FSu, Hamar og Gnúpverjar eru öll úr leik í Maltbikarkeppni karla í körfubolta. Liðin töpuðu leikjum sínum í kvöld.

FSu fékk Grindavík í heimsókn. Eftir góðan 1. leikhluta gáfu gestirnir í fyrir leikhlé og leiddu 38-51 í hálfleik. Þriðji leikhluti var jafn en í þeim fjórða gerðu Grindvíkingar endanlega út um leikinn og sigruðu 72-92. Florijan Jovanov var stigahæstur hjá FSu með 22 stig og Jett Speelman skoraði 13.

Í Hveragerði voru ÍR-ingar í heimsókn. Gestirnir tóku öll völd í fyrri hálfleik og staðan í leikhléi var 29-48. Seinni hálfleikurinn var mun jafnari en Hamri tókst ekki að saxa á forskotið að ráði. Lokatölur 73-91. Julian Nelson skoraði 15 stig fyrir Hamar og þeir Larry Thomas og Ísak Sigurðarson voru báðir með 11 stig. Þorgeir Freyr Gíslason skoraði 10.

Þá sóttu Gnúpverjar Breiðabik heim í hörkuleik í Kópavoginn. Fyrri hálfleikurinn var jafn en staðan af honum loknum var 45-42. Heimamenn náðu ágætu forskoti í 3. leikhluta og héldu sínu allt til leiksloka. Að lokum skildu sextán stig liðin að, 93-77. Everage Richardson skoraði 32 stig fyrir Gnúpverja og Þórir Sigvaldason 13.

Fyrri grein„Á í ástar/ haturssambandi við þáttinn“
Næsta greinVináttuverkefni í leikskólanum Árbæ