Tap í jöfnum leik í Hólminum

FSu bíður enn eftir sínum fyrsta sigri í 1. deild karla í körfubolta en í kvöld tapaði liðið fyrir Snæfelli í hörkuleik á útivelli, 110-103.

Fyrsti leikhluti var jafn og mikið skorað, en FSu leiddi að honum loknum, 26-28. Heimamenn náðu forystunni í 2. leikhluta og staðan í hálfleik var 50-47.

Áfram var jafnræði með liðunum í síðari hálfleik þar sem þau skiptust á um að gera áhlaup. Heimamenn náðu sex stiga forskoti í upphafi 4. leikhluta, 80-74, en FSu náði að minnka muninn í eitt stig, 84-83. FSu komst ekki nær því að brúa bilið og heimamenn vörðu forskot sitt vel.

Jett Speelman var bestur í liði FSu í sínum fyrsta deildarleik fyrir félagið, skoraði 30 stig og tók 12 fráköst og Ari Gylfason átti sömuleiðis mjög góðan leik, en hann spilaði 40 mínútur og skoraði 28 stig. Florijan Jovanov lét heldur ekki sitt eftir liggja, skoraði 19 stig og var sterkur undir körfunni.

Tölfræði FSu: Jett Speelman 30/12 fráköst, Ari Gylfason 28/7 fráköst, Florijan Jovanov 19/8 fráköst, Haukur Hreinsson 11/5 stoðsendingar, Hlynur Hreinsson 6, Jón Jökull Þráinsson 5, Maciek Klimaszewski 4.

Fyrri grein„Langar að spóla áfram og komast til Rússlands núna“
Næsta greinÖkuferðin endaði á Pylsuvagninum