Selfyssingar framlengja við Gunnar

Knattspyrnudeild Selfoss hefur framlengt samning Gunnars Borgþórssonar, þjálfara karlaliðs félagsins, til þriggja ára.

Gunnar hefur stýrt karlaliði Selfoss frá miðju sumri 2015 og átti eitt ár eftir af fyrri samningi. Einhugur var hjá stjórn deildarinnar um að Gunnar myndi halda áfram sinni vinnu að byggja upp sterkt Selfosslið.

„Ég er glaður með að við getum haldið áfram að vinna í stefnu félagsins. Kjarninn er að styrkjast, ungir leikmenn að koma upp og efniviðurinn í yngri flokkum frábær. Næstu skref hjá meistaraflokki karla eru að halda áfram að styrkja liðið innanfrá, fjölga og styrkja í starfsliði og fá inn sterka leikmenn og sterka karaktera sem geta hjálpað okkur að færast nær efstu liðunum. Það vantar mjög lítið uppá til þess að það gerist,“ segir Gunnar.

Hann er einnig yfirþjálfari yngri flokka hjá félaginu og nefnir sérstaklega hversu öflugt starfið er þar.

„Félagið hefur aldrei verið eins fjölmennt, við höfum aldrei átt eins sterka yngri flokka og erum með landsliðsfólk í yngri landsliðunum. Við höfum allt til alls á Selfossi, aðstaðan er frábær yfir sumarið og með komu knatthúss tökum við næsta skref.“

Adólf Ingvi Bragason, formaður stjórnar, segir gríðarleg ánægja sé innan knattspyrnudeildarinnar með að Gunnar hafi framlengt samning sinn við Selfoss.

„Tilhneigingin hefur verið að skipta út þjálfara eftir eitt til tvö keppnistímabil. Við ætlum ekki að fara þá leið, viljum frekar standa með þjálfaranum og gefa honum byr undir báða vængi með því að framlengja samninginn hans. Það þurfa allir hjá félaginu að leggja meira á sig til þess að liðið taki næsta skref. Efniviðurinn er góður sem sýnir sig best í því að uppistaðan í hópnum á síðasta tímabili voru ungir og efnilegir leikmenn sem aldir eru upp hjá félaginu,“ segir Adólf.

Fyrri grein„Fjallar um apa sem er súr og svekktur“
Næsta greinSigurður Ingi leiðir lista Framsóknarflokksins