Jón Daði maður leiksins gegn Tyrklandi

„Þetta var einn af þessum leikjum þar sem allt gekk upp í minni frammistöðu og þegar liðið spilar allt saman vel þá hjálpar það líka til."

Þetta sagði Selfyssingurinn Jón Daði Böðvarsson eftir 3-0 sigur Íslands á Tyrklandi á útivelli í undankeppni Heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu í kvöld. Jón Daði var frábær í leiknum og lagði meðal annars upp tvö fyrstu mörk Íslands. Hann fékk 10 í einkunn bæði hjá fotbolti.net og 433.is og var valinn maður leiksins hjá íslenska liðinu.

„Þetta var frábær leikur í heild sinni hjá okkur,“ sagði Jón Daði í viðtali við fotbolti.net eftir leik og bætti við að það hafi verið auðvelt að gíra sig í leikinn.

„Þetta eru bestu leikirnir, þú vilt spila í þessu umhverfi. Það er miklu skemmtilegra að spila í þessu en á tómum velli í Úkraínu eða Króatíu. Það mótiverar mann að spila í svona.“

Ísland leikur gegn Kósóvó á heimavelli á mánudagskvöld og getur með sigri tryggt sér sæti í úrslitakeppni heimsmeistaramótsins í fyrsta sinn.

Viðtal fotbolti.net við Jón Daða

Fyrri grein„Langþráður áfangi fyrir Póstinn á Selfossi“
Næsta greinRangárþing eystra skellti Árborg í Útsvarinu