Guðmundur Tyrfingsson æfði með Norwich

Guðmundur Tyrfingsson leikmaður 4. flokks Selfoss hefur undanfarna daga verið í heimsókn hjá enska 1. deildarfélaginu Norwich City og æft og spilað með U16 og U19 ára liðum félagsins.

Ásamt Guðmundi var Ari Sigurpálsson, leikmaður HK, við æfingar hjá Norwich á sama tíma.

Guðmundur spilar fyrir 4. og 3. flokk Selfoss, en báðir flokkarnir komust í úrslit á Íslandsmótinu og 4. flokkur varð í efsta sæti í A-deildinni.

Gunnar Borgþórsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá knattspyrnudeild Selfoss, var Guðmundi til halds og trausts í ferðinni ásamt því að skoða aðstæður og koma á góðum samböndum við eina af fremstu knattspyrnuakademíum Bretlandseyja.

Guðmundur spilaði tvo leiki í ferðinni, skoraði tvö mörk í 3-0 sigri í fyrri leiknum og í gær skoraði hann eitt mark í 4-1 sigri á Ipswich Town.

Hjá Norwich eru tveir íslenskir leikmenn fyrir, þeir Atli Barkarson og Ísak Þorvaldsson fyrirliði 17 ára landsliðs Íslands.

Fyrri greinRaw kókos Bounty bitar
Næsta greinÞórsarar meistarar meistaranna