Stór skellur á heimavelli

Selfoss tapaði stórt þegar Valur kom í heimsókn í Vallaskóla í Olís-deild karla í handbolta í kvöld. Lokatölur urðu 23-31.

Selfoss komst í 3-0 í upphafi leiks en Valur jafnaði 5-5 þegar tæpar 14 mínútur voru liðnar. Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik en Selfyssingar höfðu frumkvæðið og leiddu 15-14 í hálfleik.

Selfyssingar héldu forystunni inn í seinni hálfeikinn og þegar rúmar tólf mínútur voru liðnar var staðan 19-18. Þá skoruðu Valsmenn fimm mörk í röð og breyttu stöðunni í 19-23. Gestirnir héldu forystunni eftir það og munurinn jókst enn frekar á lokamínútunum.

Einar Sverrisson var markahæstur Selfyssinga með 7/4 mörk, Elvar Örn Jónsson skoraði 6, Teitur Örn Einarsson 4, Hergeir Grímsson 3 og þeir Atli Ævar Ingólfsson, Guðjón Baldur Ómarsson og Haukur Þrastarson skoruðu allir 1 mark.

Helgi Hlynsson varði 13 skot í marki Selfoss og var með 34% markvörslu og Alexander Hrafnkelsson varði 2 skot og var með 25% markvörslu.

Selfyssingar eru í 7. sæti Olís-deildarinnar með 4 stig en Valur er í 2. sæti með 8 stig.

Fyrri greinLeikskólabörn send heim vegna manneklu
Næsta greinStrókur fær styrk frá TRS