„Gömlu mennirnir“ afgreiddu Hauka

Selfoss lagði Hauka á heimavelli í lokaumferð Inkasso-deildarinnar í knattspyrnu í dag. Lokatölur urðu 2-1 og aldursforsetarnir í liði Selfoss skoruðu mörkin.

„Við fáum mjög mikið af góðum færum en það var aðeins bras á okkur í fyrri hálfleik fannst mér. Við töluðum saman í hálfleik og mönnum langaði mjög mikið að vinna í dag. Það voru allir að leggja sig fram, bekkur, staff og allir sem mættu hingað á svæðið. Leikurinn var bara flottur,” sagði Gunnar Borgþórsson, þjálfari Selfoss, í samtali við fotbolti.net eftir leik.

Leikurinn fór rólega af stað og fátt bar til tíðinda fyrr en Haukar komust yfir á 17. mínútu. Þeir sundurspiluðu þá Selfossvörnina og Ísak Jónsson skoraði með góðu skallamarki.

Selfyssingar þurftu dálítinn tíma til þess að stilla sig af eftir að hafa lent undir en tóku í kjölfarið öll völd á vellinum og fengu ágæt hálffæri og eitt dauðafæri þegar Pachu slapp í gegn en góður markvörður Hauka varði frá honum.

Staðan var 1-0 í hálfleik og leikurinn var í járnum framan af seinni hálfleik. Á 65. mínútu jafnaði Andy Pew (37) metin þegar hann renndi sér á boltann í teignum eftir hornspyrnu.

Síðustu tuttugu mínútur leiksins áttu Selfyssingar leikinn með húð og hári og sigurmarkið lá í loftinu. Sóknirnar dundu á Haukavörninni og ljóst að eitthvað varð undan að láta. Það var þó ekki fyrr en á lokamínútunni að Ingi Rafn Ingibergsson (34) náði að koma boltanum í netið með lúmsku skoti utarlega í teignum eftir mikinn darraðadans í vítateig Hauka.

Selfyssingar luku leik í 8. sæti deildarinnar með 28 stig, í sama sæti og í fyrrasumar og með sama stigafjölda.

Fyrri greinPrófkjör hafið hjá Pírötum
Næsta greinSjö marka tap gegn Eyjakonum