Markalaust á þjóðarleikvanginum

Selfoss og Fram gerðu markalaust jafntefli í Inkasso-deildinni í knattspyrnu þegar þau áttust við á Laugardalsvellinum í kvöld.

„Við vorum fínir varnarlega, gerðum ágætis hluti fram á við en mér fannst vanta herslumunin til að koma inn marki í dag. Það eru tveir leikir eftir og við verðum að taka sex stig, það væri gaman að klára þetta þannig,“ sagði Guðjón Orri Sigurjónsson, markvörður Selfoss, í samtali við fotbolti.net eftir leik.

Fyrri hálfleikur var í járnum og fátt um færi en meira fjör færðist í leikinn í síðari hálfleik. Færin voru ekki mörg, en bæði lið fengu þó góð færi til þess að klára leikinn.

Það tókst ekki og niðurstaðan varð 0-0.

Þegar tvær umferðir eru eftir eru Selfyssingar með 25 stig í 9. sæti deildarinnar. Framarar eru einu sæti ofar með 27 stig.

Fyrri greinLandgræðslan og Katla jarðvangur treysta samstarfið
Næsta greinDælustöð í byggingu