Dagur Fannar bætti 66 ára gamalt HSK met

HSK/Selfoss eignaðist tvo Íslandsmeistara þegar Meistaramót Íslands í fjölþrautum fór fram í Kópavogi síðastliðinn laugardag, þann 2. september.

Dagur Fannar Einarsson keppti í flokki 15 ára pilta og Hildur Helga Einarsdóttir í flokki 15 ára stúlkna. Bæði kepptu þau í fimmtarþraut, sem eins og nafnið bendir til samanstendur af fimm greinum.

Dagur Fannar sigraði piltaflokkinn á nýju Íslandsmeti en hann fékk 2.859 stig eftir hörku keppni. Dagur stökk 6,09 m í langstökki og bætti sig um 20 sm, kastaði spjóti 37,24 m, kringlu 31,35 m og bætti sig vel, hljóp 200 m á 24,32 sek og bætti sig einnig þar. Að lokum hljóp hann 1.500 m hlaup á 4:31,14 mín og bætti sig um þrjár sekúndur. Tíminn í 1.500 m hlaupinu er bæting á elsta HSK metinu í greinum sem ennþá er keppt í utanhúss. Gamla metið átti Þór Vigfússon, 4:38,1 mín með handtímatöku og svo skemmtilega vill til að það var sett fyrir nákvæmlega 66 árum síðan, þann 2. september 1951.

Hildur Helga sigraði svo stúlknaflokkinn með yfirburðum fékk 4.031 stig sem er 550 stigum meira en silfursætið og HSK met. Hún bætti sig í grindahlaupi, hástökki og spjótkasti þar sem hún setti einnig HSK met. Hildur Helga hljóp 80 m grindahlaup á 13,66 sem, kastaði kúlu 11,59 m, stökk 1,45 m í hástökki og kastaði spjóti 42,17 m. Lokagreinin var 400 m hlaup og þar hljóp Hildur Helga á 74,70 sek.

Fyrri greinLeiðsögn með Margréti Elísabetu
Næsta greinYfir sjötíu kærðir fyrir hraðakstur