Árborg undir þegar einvígið er hálfnað

Knattspyrnufélag Árborgar tapaði 0-2 á heimavelli gegn Augnabliki í fyrri viðureign liðanna í úrslitakeppni 4. deildar karla í knattspyrnu í dag.

Árborgarar fóru varlega inn í leikinn og náðu ekki að nýta sér veikleikana í vörn og miðjuspili gestanna. Augnablik var meira með boltann en fátt var um færi í fyrri hálfleik. Staðan var 0-0 í leikhléi.

Gestirnir mættu ákveðnir til síðari hálfleiks og komust yfir strax eftir fjórar mínútur með fallegu marki. Aðeins mínútu síðar lá knötturinn aftur í netinu hjá Árborg og staðan orðin 0-2.

Þær urðu lokatölur leiksins en Augnablikar voru mun nær því að bæta við mörkum. Árborg ógnaði lítið og einu marktilraunir liðsins voru bjartsýnisskot fyrir utan vítateiginn.

Seinni leikur liðanna verður í Fagralundi í Kópavogi á miðvikudag en samanlögð úrslit úr leikjunum tveimur ráða því hvort liðið fer í undanúrslit.

Fyrri greinEldur í skorsteini á Hótel Selfossi
Næsta greinLokað bakvið Seljalandsfoss vegna grjóthruns