Mack og McIntosh með mörkin

Selfyssingar girtu sig í brók og unnu öruggan sigur á Leikni Fáskrúðsfirði í Inkasso-deildinni í knattspyrnu í dag, þegar liðin mættust í Fjarðabyggðarhöllinni.

Leikurinn var jafn framan af en þegar leið á fyrri hálfleik hafði Selfoss fulla stjórn á leiknum og fékk betri færi, meðal annars stangarskot. Staðan var 0-0 í leikhléi.

Síðari hálfleikur var í járnum en ísinn var loksins brotinn á 79. mínútu þegar JC Mack kom Selfyssingum yfir með góðu marki. Á lokamínútunum átti Elvar Vignisson skalla í þverslána en skömmu síðar uppskáru Selfyssingar annað mark þegar Leighton McIntosh skoraði sitt fyrsta mark fyrir liðið á snyrtilegan hátt.

Selfyssingar sitja nú í 8. sæti deildarinnar með 24 stig og mæta næst Fylki á heimavelli næstkomandi miðvikudag kl. 17:45.

Fyrri greinSelfoss sigraði á Ragnarsmótinu
Næsta greinGóðæri dregur úr áhuga á sameiningu