Hamar að missa af úrslitakeppninni

Líkurnar á að Hamar komist í úrslitakeppni 4. deildar karla í knattspyrnu eru aðeins fræðilegar eftir að liðið tapaði 1-2 gegn Hvíta riddaranum á heimavelli í kvöld.

Hvíti riddarinn komst í 0-2 í fyrri hálfleik en gestirnir skoruðu bæði mörkin með með fjögurra mínútna millibili um miðjan fyrri hálfleikinn. Jordan Follows minnkaði muninn fyrir Hamar á 72. mínútu og þar við sat. Lokatölur 1-2.

Hamar er í 3. sæti A-riðilsins, þremur stigum á eftir Hvíta riddaranum þegar ein umferð er eftir. Hamar þarf að treysta á að Hvíti riddarinn tapi fyrir GG í síðustu umferðinni, um leið og Hvergerðingar þurfa að vinna topplið Kórdrengjanna stórt. Gerist það þarf Hamar að vinna upp markamun upp á þrettán mörk.

Í B-riðli 4. deildarinnar tók Stokkseyri á móti KFS frá Vestmannaeyjum í kvöld. Gestirnir voru komnir í 0-3 á 34. mínútu en Elías Örn Arnarson minnkaði muninn fyrir Stokkseyri fimm mínútum síðar. KFS skoraði síðasta mark fyrri hálfleiks og staðan var 1-4 í leikhléi. Lokakafli leiksins var fjörugur, Eyþór Gunnarsson minnkaði muninn í 2-4 þegar tólf mínútur voru eftir en KFS svaraði með fjórum mörkum á sjö mínútna kafla og lokatölur urðu 2-8.

Stokkseyri er með 13 stig í 8. sæti riðilsins og á einn leik eftir, gegn toppliði ÍH á útivelli.

Fyrri grein„Við vorum mjög óheppnir í kvöld“
Næsta greinLeikfélag Ölfuss hlaut listaverðlaun Ölfuss 2017