Sofnuðu tvisvar á verðinum

Selfoss sótti HK heim í Kórinn í Kópavogi í Inkasso-deildinni í knattspyrnu í kvöld. Eftir að hafa sofnað tvisvar á verðinum töpuðu Selfyssingar 2-1.

Selfoss byrjaði leikinn ákaflega illa og strax á fyrstu mínútu leiksins komust heimamenn yfir eftir klaufagang í Selfossvörninni. Þeir vínrauðu jöfnuðu sig þó fljótlega og á 16. mínútu jafnaði afmælisdrengurinn JC Mack metin með góðu skoti. Aðeins þremur mínútum síðar komust HK menn aftur yfir eftir að hafa gert harða hríð að marki Selfoss. Staðan var 2-1 í hálfleik.

Selfyssingar stýrðu leiknum í síðari hálfleik en HK liðið varðist vel og Selfosspiltar fundu engar glufur á vörn heimamanna. Sigurður Eyberg Guðlaugsson fékk besta færi Selfyssinga í síðari hálfleik undir lok leiksins en náði ekki góðu skoti þar sem hann var staddur við vítapunktinn.

Selfoss siglir lygnan sjó um miðja deildina, eru í 7. sæti með 21 stig.

Fyrri greinSautjánda flugeldasýningin á Jökulsárlóni
Næsta greinStokkseyri lagði Afríku – KFR gerði jafntefli