„Förum glöð inn í helgina“

Selfoss vann gríðarlega sætan og mikilvægan útisigur á Sindra í 1. deild kvenna í knattspyrnu í kvöld og endurheimti þar með toppsætið.

„Þetta var hrikalega sterkur sigur hjá okkur enda Sindraliðið mjög gott. Þetta er erfiður útivöllur og það var sætt að ná að klára þetta í blálokin. Við förum glöð inni í Verslunarmannahelgina,“ sagði Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Magdalena Reimus kom Selfyssingum yfir strax á 3. mínútu með marki úr vítaspyrnu sem dæmd var eftir að brotið var á Kristrúnu Rut Antonsdóttur.

Selfyssingar voru sterkari í fyrri hálfleiknum og fengu nokkur ágæt færi til að bæta við marki en inn vildi boltinn ekki.

Staðan var 0-1 í leikhléi og Selfoss hélt áfram að sækja í seinni hálfleik. Sindrakonur unnu sig hins vegar vel inn í leikinn og á 75. mínútu náði Phoenetia Browne að jafna metin.

Allt stefndi í jafntefli þar til í uppbótartímanum að Kristrún Rut skoraði sigurmark Selfoss. Anna María Friðgeirsdóttir tók aukaspyrnu út á miðjum vellinum sem rataði beint á kollinn á Kristrúnu.

Selfoss hefur 29 stig í toppsætinu en þar fyrir neðan eru Þróttur með 28 stig og HK/Víkingur með 27 stig. Bæði lið eiga leik til góða á Selfoss.

Fyrri grein„Virkuðum stressaðir í upphafi“
Næsta greinKFR og Stokkseyri töpuðu