Hamar skoraði níu

Hamar vann stórsigur á Snæfelli/UDN á útivelli í 4. deild karla í knattspyrnu í gærkvöldi. Lokatölur urðu 1-9.

Jordan Follows og Hrannar Einarsson komu Hamri í 0-2 snemma leiks en Snæfell/UDN minnkaði muninn undir lok fyrri hálfleiks og staðan var 1-2 í leikhléi.

Veislan hófst svo fyrir alvöru í byrjun seinni hálfleiks þar sem Hvergerðingar skoruðu fimm mörk á fimmtán mínútna kafla. Follows skoraði tvívegis, Magnús Benediktsson eitt og Friðrik Örn Emilsson eitt auk þess sem Snæfellingar skoruðu eitt sjálfsmark. Staðan orðin 1-7 á 60. mínútu.

Follows og Hrannar bættu svo við sitthvoru markinu á lokakafla leiksins og innsigluðu 1-9 sigur.

Með sigrinum endurheimti Hamar 2. sætið í A-riðlinum, sem gefur sæti í úrslitakeppninni. Baráttan er hins vegar hörð en fimm lið eru í harðri baráttu um efstu tvö sætin.

Fyrri greinGuðmundur Axel skoraði fyrir Ísland
Næsta greinRæktó fann hitaveituvatn fyrir Hornfirðinga