Selfoss í toppsætið eftir öruggan sigur

Selfoss vann öruggan sigur á Víkingi Ólafsvík í 1. deild kvenna í kvöld. Lokatölur á Selfossvelli voru 2-0, og var sigurinn síst of stór.

Selfoss byrjaði af krafti og Magdalena Reimus kom liðinu yfir strax á 4. mínútu með skoti af stuttu færi úr teignum eftir sendingu innfyrir frá Kristrúnu Antonsdóttur. Eftir markið duttu Selfyssingar niður og gestirnir höfðu völdin víða um völlinn, án þess þó að skapa sér færi. Reyndar þurfti Chanté Sandiford, markvörður Selfoss, ekkert að hafa fyrir því að halda markinu hreinu allan leikinn.

Staðan var 1-0 í hálfleik en seinni hálfleikurinn var mun betri hjá Selfossliðinu sem hafði mjög góð tök á leiknum. Alex Alugas kom Selfoss í 2-0 á 54. mínútu þegar hún fékk frábæra sendingu innfyrir frá Kristrúnu. Fyrsta mark Alugas fyrir Selfoss og önnur stoðsending Kristrúnar í leiknum.

Heimakonur áttu margar frábærar sóknir í seinni hálfleiknum en voru óheppnar upp við markið og þrívegis fór boltinn í stöng eða slá á marki Víkings.

Selfoss er nú í toppsæti deildarinnar, í fyrsta skipti í sumar, með 23 stig eftir 11 leiki.

Mörkin úr leiknum má sjá hér að neðan en Jón Karl Jónsson tók myndbandið saman.

Fyrri grein„Móðir Jörð og Steinninn ég“ í Sveinshúsi
Næsta greinÆgismenn anda léttar eftir þrennu Guðmundar