Þrjú mörk Rangæinga á lokakaflanum – Árborg gerði jafntefli

KFR vann baráttusigur í grannaslag gegn Stokkseyri í B-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu á Stokkseyri í kvöld. Árborg gerði 1-1 jafntefli við Skallagrím í C-riðlinum.

Magnús Hilmar Viktorsson kom Rangæingum yfir á 20. mínútu og reyndist það eina mark fyrri hálfleiks. Fjörið var meira í seinni hálfleiknum en Eyþór Gunnarsson kom Stokkseyri yfir með tveimur mörkum með tuttugu mínútna millibili í fyrri hluta hans.

Lokakaflinn var hins vegar æsilegur og KFR nýtti síðustu tíu mínúturnar til þess að knýja fram sigur. Aron Örn Þrastarson jafnaði 2-2 á 81. mínútu og þremur mínútum síðar skoraði Hjörvar Sigurðsson. Aron Örn var svo aftur á ferðinni á 90. mínútu og kom KFR í 2-4. Örvar Hugason minnkaði muninn fyrir Stokkseyri í uppbótartímanum og lokatölur urðu 3-4.

Það var minna fjör á Selfossvelli þar sem Árborg tók á móti Skallagrím í toppbaráttu C-riðilsins. Árborg byrjaði leikinn af krafti en það voru gestirnir út Borgarnesi sem urðu fyrri til að skora, á 25. mínútu. Staðan var 0-1 í hálfleik en Magnús Helgi Sigurðsson jafnaði metin á 56. mínútu. Fleiri urðu mörkin ekki en Árborgarar voru nær því að bæta við.

KFR fór upp í 4. sæti B-riðils með sigrinum í kvöld en liðið hefur 16 stig. Stokkseyr er í 6. sætinu með 10 stig.

Í C-riðlinum er Árborg í 5. sæti með 17 stig en Skallagrímur er í 4. sætinu, sömuleiðis með 17 stig.

Fyrri greinMaður féll í Gullfoss
Næsta greinVel á annað hundrað manns við leit