Sunnlensku liðin lentu í úlfum og kríum

Hamar og Hrunamenn riðu ekki feitum hesti frá viðureignum sínum í 4. deild karla í knattspyrnu í gærkvöldi.

Hamar fékk Kríu frá Seltjarnarnesi í heimsókn á Grýluvöll. Nýjasta viðbótin við leikmannahóp Hamars, Jordan Follows, kom heimamönnum yfir strax á 2. mínútu. Kría náði hins vegar að svara tvívegis fyrir sig undir lok fyrri hálfleiks og staðan var 1-2 í leikhléi.

Gestirnir byrjuðu betur í síðari hálfleik og bættu þriðja markinu við á 58. mínútu. Hrannar Einarsson kom Hamri aftur inn í leikinn á 73. mínútu og staðan var á orðin 2-3, en gestirnir áttu síðasta orðið og innsigluðu 2-4 sigur með marki á 81. mínútu.

Það gekk sýnu verr hjá Hrunamönnum sem heimsóttu Úlfana á Framvöllinn í Reykjavík. Úlfarnir voru komnir í 3-0 eftir fimmtán mínútna leik. Hafþór Ingi Ragnarsson minnkaði muninn fyrir Hrunamenn en Úlfarnir svöruðu með þremur mörkum á stuttum tíma og staðan var 6-1 í leikhléi.

Úlfarnir bættu svo við fimm mörkum í seinni hálfleiknum, án þess að Hrunamenn næðu að svara fyrir sig. Lokatölur 11-1.

Í A-riðli 4. deildarinnar er Hamar nú í 3. sæti með 16 stig og Kría er þar fyrir ofan með 18 stig og leik til góða.

Hrunamenn eru í 7. sæti C-riðilsins með 2 stig.

Fyrri greinSkálholtshátíð um næstu helgi
Næsta grein90 ára afmæli Hellu fagnað á Töðugjöldum