Mæðgin og feðgin meistarar í þremur klúbbum

Golfíþróttin er mikið fjölskyldusport og það sannaðist á meistaramótum þriggja sunnlenskra golfklúbba sem lauk fyrir skömmu. Mæðgin eða feðgin urðu klúbbmeistarar í öllum klúbbunum.

Hjá Golfklúbbnum Hellu varð Andri Már Óskarsson klúbbmeistari karla á 279 höggum og móðir hans, Katrín Björg Aðalbjörnsdóttir, varð klúbbmeistari kvenna á 358 höggum. Andri Már spilaði hringina fjóra samtals á einu höggi undir pari og er það í fyrsta skipti sem kylfingur nær svo góðum árangri af hvítum teigum á meistaramóti GHR. Mótið fór fram 5.-8. júlí og veðrið lék ekki við keppendur á mótinu. Nokkur vindur var alla dagana og skúrir á fimmtudeginum.

Á meistaramóti Golfklúbbs Selfoss sem fór fram dagana 4.-8. júlí á Svarfhólsvelli varð Hlynur Geir Hjartarson klúbbmeistari karla á 266 höggum og dóttir hans, Heiðrún Anna Hlynsdóttir, varð klúbbmeistari kvenna á 313 höggum, en bæði léku glæsilegt golf.

Í Þorlákshöfn fór meistaramót Golfklúbbs Þorlákshafnar fram 29. júní til 1. júlí varð Ingvar Jónsson klúbbmeistari karla á 308 höggum og móðir hans, Ásta Júlía Jónsdóttir, varð klúbbmeistari kvenna á 315 höggum. Mótið fór að öllu leiti vel fram, veður var nokkuð gott og höggafjöldi kylfinga því með betra móti. Í meistaraflokki karla voru leiknir fjórir hringir en þrír í kvennaflokknum.


Klúbbmeistarar GOS, feðginin Hlynur Geir og Heiðrún Anna, ásamt Ástfríði M. Sigurðardóttur, formanni. Ljósmynd/Aðsend


Ingvar Jónsson og Ásta Júlía Jónsdóttir, klúbbmeistarar GÞ 2017. Ljósmynd/Aðsend

Fyrri greinKFR tapaði heima
Næsta greinÁrborg í viðræður við ríkið um nýtt gólf í Iðu