Hamar slátraði Ísbirninum

Hamarsmenn voru í vígahug þegar þeir mættu Ísbirninum í A-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu í kvöld á gervigrasinu við Kórinn í Kópavogi.

Veislan byrjaði á 7. mínútu þegar Sam Malson kom knettinum í netið og tuttugu mínútum síðar bætti Tómas Hassing við marki. Hrannar Einarsson kom Hamri svo í 3-0 áður en Malson skoraði annað mark sitt. Staðan var 0-4 í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn var rólegri. Ísbjörninn minnkaði muninn á 56. mínútu en rúmum tíu mínútum síðar skoraði Tómas sitt annað mark og breytti stöðunni í 1-5. Malson náði svo þrennunni á lokamínútu leiksins og innsiglaði 1-6 sigur Hamars.

Hamar er nú í 2. sæti riðilsins með 16 stig, að loknum átta umferðum.

Fyrri greinStrandaglópar á hólma í Skaftá
Næsta greinSlök frammistaða á Ásvöllum