Þrjú mörk í lokin gerðu út um leikinn

Árborg vann öruggan 0-5 sigur á Hrunamönnum í 4. deild karla í knattspyrnu á Flúðavelli í kvöld. Gestirnir gerðu út um leikinn á síðustu sjö mínútunum.

Árborg var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og hefði getað skorað fleiri mörk, en Bjarni Rúnarsson, markvörður Hrunamanna átti mjög góðan leik í kvöld.

Daníel Ingi Birgisson kom Árborg yfir á 20. mínútu þegar hann skoraði af harðfylgi af stuttu færi. Þremur mínútum síðar skoraði Ingvi Rafn Óskarsson af vítapunktinum eftir að Kristján Valur Sigurjónsson hafði brotið á Frey Sigurjónssyni.

Hrunamenn voru nálægt því að minnka muninn á 32. mínútu þegar Árborgarar björguðu á línu eftir skalla frá Kjartani Sigurðssyni. Staðan var 0-2 í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn fór rólega af stað en þegar fimmtán mínútur voru liðnar tóku Hrunamenn öll völd á vellinum. Þeim tókst þó ekki að skapa sér teljandi færi og fengu síðan mark í andlitið á 83. mínútu þegar Hartmann Antonsson kom Árborg í 0-3.

Skömmu síðar var Hafþór Ingi Ragnarsson nálægt því að minnka muninn fyrir Hrunamenn en með nokkurra sekúndna millibili átti hann skot rétt framhjá og skalla í stöng.

Árborgarar gerðu svo endanlega út um leikinn með tveimur mörkum á síðustu tveimur mínútunum. Fyrst skoraði Magnús Helgi Sigurðsson gott mark eftir laglega sókn og Eiríkur Raphael Elvy tryggði Árborg svo 0-5 sigur með frábæru einstaklingsframtaki í uppbótartímanum.

Með sigrinum fór Árborg upp í 2. sæti deildarinnar á markahlutfalli, en liðið hefur 16 stig eins og Ýmir sem er í 1. sæti og Léttir sem er í 3. sæti. Hrunamenn eru áfram í 6. sætinu með 2 stig.

Fyrri grein120 ár frá fæðingu Ólafs Túbals
Næsta greinHelgur hljómur í Strandarkirkju