Fáheyrðir yfirburðir HSK/Selfoss

Lið HSK/Selfoss sigraði heildarstigakeppni Meistaramóts Íslands 11-14 ára í frjálsum íþróttum með fáheyrðum yfirburðum. Mótið fór fram í Kópavogi um helgina.

HSK/Selfoss sigraði í heildarstigakeppninni með rúmlega 920 stiga mun. Liðið fékk 1.301,2 stig en í öðru sæti varð Breiðablik með 377,5 stig. HSK/Selfoss hlaut flest verðlaun á mótinu, samtals 71, sem skiptist í 21 gullverðlaun, 25 silfurverðlaun og 25 bronsverðlaun. Sunnlendingar sigruðu í stigakeppni allra aldursflokka, bæði stúlkna og pilta, nema einum.

Sindri Freyr Seim Sigurðsson setti mótsmet í 80 m grindahlaupi 14 ára pilta þar sem hann sigraði á 12,63 sek og Eva María Baldursdóttir setti einnig glæsilegt mótsmet, en hún sigraði í hástökki 14 ára stúlkna og stökk 1,56 sm.

Eitt HSK met var slegið á mótinu en sveit HSK/Selfoss hljóp 4×100 metra boðhlaup í flokki 13 ára pilta á 53,11 sek og sigraði. Sveitin bætti þar með tveggja ára gamalt héraðsmet um 0,82 sekúndur. Sveitina skipuðu Goði Gnýr Guðjónsson, Haukur Arnarsson, Sæþór Atlason og Sebastian Þór Bjarnason.

Auk þessa var mikið um persónulegar bætingar á mótinu en HSK/Selfoss sendi sjötíu keppendur til leiks og bættu þeir sinn besta árangur 169 sinnum á mótinu.

Fyrri greinGóð veiði í fyrstu vikunni
Næsta greinUppboð á notuðum leiktækjum