Ingimar lét til sín taka

Knattspyrnufélag Árborgar vann öruggan sigur á Úlfunum á útivelli í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Ingimar Helgi Finnsson var maður kvöldsins hjá þeim bláu.

Árni Páll Hafþórsson skoraði eina mark fyrri hálfleiks um miðjan hálfleikinn og staðan var 0-1 í leikhléi, þrátt fyrir margar góðar sóknir Árborgar.

Árborg stýrði leiknum í seinni hálfleiknum og fengu nokkur prýðileg færi sem öll fóru í súginn.

Þegar fjórtán mínútur voru til leiksloka kom Ingimar Helgi Finnsson inná hjá Árborg, í sínum 50. leik fyrir félagið. Hann hélt upp á það með því að leggja upp tvö mörk og skora eitt á átta mínútna kafla í kjölfarið.

Ingimar byrjaði á því að vinna boltann og senda frábæra sendingu innfyrir á Magnús Helga Sigurðsson sem lék á markmanninn og skoraði í autt markið. Fjórum mínútum síðar fengu Árborgarar hornspyrnu, boltinn barst á Ingimar á fjærstönginni sem skoraði af öryggi.

Aftur liðu fjórar mínútur þangað til Ingimar sendi boltann á Ingva Rafn Óskarsson sem skoraði með góðu skoti. Lokatölur 4-0.

Sigurinn fleytti Árborg upp í 3. sæti C-riðilsins en liðið hefur 10 stig og er þremur stigum á eftir toppliði Léttis.

Í A-riðlinum tapaði Hamar sínum fyrsta leik í sumar þegar liðið heimsótti Hvíta riddarann. Lokatölur urðu 1-0 en Riddararnir skoruðu sigurmarkið á 35. mínútu. Hamar gaf því eftir toppsætið í þessari umferð, en hefur 12 stig í 2. sætinu.

Fyrri greinSkjálftahrina í Kötlu
Næsta greinÚtgáfutónleikar í Tjarnarbíói