„Þetta var góður liðssigur“

Selfyssingar komust upp í 3. sæti Inkasso-deildarinnar í knattspyrnu í dag með því að leggja botnlið Leiknis Fáskrúðsfirði að velli, 2-0 á JÁVERK-vellinum á Selfossi.

„Þetta var góður liðssigur. Mér fannst við í heildina vera töluvert betri allan leikinn og áttum mikið af hálffærum og nokkur góð færi áður en við skorum fyrsta markið,“ sagði Gunnar Borgþórsson, þjálfari Selfoss, í samtali við fotbolti.net eftir leik.

„Þetta var hraður og skemmtilegur leikur og bæði lið hafa greinilega verið að skerpa á sóknarleiknum hjá sér. Við breyttum aðeins áherslunum hjá okkur í vikunni og það var að skila sér. Þó hópurinn sé ekki fjölmennur þá eru allir sem geta startað,“ sagði Gunnar, en hann gerði sex breytingar á byrjunarliðinu eftir slakan leik gegn Leikni R. í síðasta leik.

Þrátt fyrir að liðin væru á sitthvorum endanum á stigatöflunni var fyrri hálfleikurinn jafn. Leiknismenn sóttu meira og fengu betri færi en staðan var ennþá 0-0 í leikhléi.

Liðin byrjuðu leikinn af miklum krafti í síðari hálfleik en Leiknismenn fóru illa með færi sín í upphafi seinni hálfleiks. Selfyssingar refsuðu gestunum fyrir það á 59. mínútu þegar JC Mack fékk boltann fyrir utan vítateiginn eftir skyndisókn og skoraði.

Á 63. mínútu fengu Leiknismenn algjört dauðafæri sem fór í súginn og eftir það datt botninn úr leik liðsins. Selfyssingar höfðu öll völd á vellinum síðasta hálftímann og á 74. mínútu skoraði Kristinn Sölvi Sigurgeirsson sitt fyrsta mark á Íslandsmótinu fyrir Selfoss þegar hann fékk frábæra sendingu innfyrir frá Svavari Berg Jóhannssyni. Kristinn Sölvi kláraði færið virkilega vel og tryggði Selfyssingum 2-0 sigur.

Sigurinn hefði reyndar getað verið stærri því Selfoss fékk í það minnsta tvö góð færi á lokakaflanum en markvörður gestanna varði frábærlega, fyrst frá Inga Rafni Ingibergssyni og síðan frá Pachu.

Selfoss hefur 13 stig í 3. sæti deildarinnar eftir sjö umferðir, en liðið er þremur stigum á eftir Fylki og Þrótti sem eru í efstu sætunum.

Næsti leikur Selfoss er einmitt gegn toppliði Fylkis í Árbænum, næstkomandi föstudagskvöld.

Fyrri greinNemendur í Setrinu stunda hestamennsku
Næsta greinSköpun sjálfsins í Listasafni Árnesinga