„Fjölmennasti skólinn frá upphafi“

Frjálsíþróttaskóla UMFÍ lauk á Selfossi í gær, fimmtudag. Þetta var níunda árið sem skólinn er haldinn á HSK svæðinu og hafa aldrei verið fleiri skráðir í skólann.

Frjálsíþróttaskólinn er haldinn samstarfi við Ungmennafélag Íslands og er ætlaður börnum á aldrinum 11 til 18 ára.

„Það voru 62 skráðir í skólann en við setjum hámarkið við 60. Það voru nokkur börn á biðlista og við gátum bætt tveimur við aukalega þannig þetta er fjölmennasti skólinn frá upphafi. Við höfum verið með með fullan skóla síðustu ár, og sextíu krakka síðustu þrjú ár,“ segir Fjóla Signý Hannesdóttir, annar af umsjónarmönnum skólans.

Í frjálsíþróttaskólanum var farið í sund, leiki, haldnar voru kvöldvökur og svo endaði skólinn með móti og grillveislu þar sem foreldarnir komu og borðuðu með börnunum sínum. Í lok námskeiðsins fengu öll ungmennin viðurkenningarskjal til staðfestingar um þátttökuna.

„Lagt er upp með að fagmenntaðir kennarar sjái um kennsluna á hverjum stað til að tryggja sem besta kennslu fyrir ungmennin,“ segir Fjóla en flestir krakkarnir voru af HSK svæðinu.

Að sögn Fjólu hafa krakkarnir margvíslegan ávinning af skólanum. „Þar sem krakkanir eru saman allan sólahringinn í fimm daga kynnast þau hvort öðru vel. Þau eignast nýja vini sem hafa sama áhugamál og þau. Einnig öðlast krakkarnir sjálfstæði að fara frá foreldrum sínum, fræðast um frjálsar, næringu og fleira,“ segir Fjóla og bætir við að skólinn hafi fengið með eindæmum góð viðbrögð.

„Ungmennin hafa farið sátt heim eftir lærdómsríka, krefjandi en umfram allt skemmtilega viku,“ segir Fjóla að lokum.


Meðal annars var farið í sund – þar sem allir voru hressir. Ljósmynd/Fjóla Signý Hannesdóttir

Fyrri greinOlíuflutningabíll valt í Flóanum
Næsta greinKristjana hreppti Grímuna