Fyrsti sigur Ægis í deildinni

Ægir vann góðan heimasigur á Dalvík/Reyni þegar liðin mættust í 3. deild karla í knattspyrnu á Þorlákshafnarvelli í dag. Þetta var fyrsti sigur Ægis í deildinni í sumar.

Jonathan Hood kom Ægi yfir á 35. mínútu og staðan var 1-0 í hálfleik. Mörkin urðu ekki fleiri, fyrr en á síðustu fimmtán mínútunum að þeim tók að rigna.

Gestirnir jöfnuðu á 75. mínútu en tíu mínútum síðar skoraði Andi Andri Morina og kom Ægi í 2-1. Fimm mínútum síðar innsiglaði svo fyrirliðinn Þorkell Þráinsson 3-1 sigur Ægis með glæsilegu aukaspyrnumarki.

Ægir lyfti sér upp í 7. sæti deildarinnar með sigrinum og hefur nú 5 stig.

Í 4. deildinni fékk KFR ÍH í heimsókn og þar fóru gestirnir með 0-2 sigur af hólmi. KFR er í 4. sæti B-riðils 4. deildar með 7 stig.

Fyrri greinÁttan tryllti lýðinn
Næsta greinÞremur bjargað úr Ölfusá