Árborg og Stokkseyri unnu stórsigra

Árborg vann Kóngana 8-0 og Stokkseyri vann Elliða 5-0 í leikjum kvöldsins í C-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu.

Árborg tók á móti Kóngunum á Selfossvelli en leikurinn var algjör einstefna að marki Kónganna. Aron Freyr Margeirsson kom Árborg yfir á 8. mínútu og á 16. mínútu bætti Árni Páll Hafþórsson við marki með hörkuskalla eftir hornspyrnu. Mínútu síðar fengu Árborgarar vítaspyrnu þegar brotið var á Ingva Rafni Óskarssyni, Aron Freyr fór á punktinn og skoraði af öryggi.

Staðan var 3-0 í hálfleik en upphafsmínútur síðari hálfleiks voru heldur betur fjörugar þar sem Árborg skoraði fjögur mörk á fyrsta korterinu. Tómas Kjartansson skoraði á upphafsmínútu seinni hálfleiksins, Ísak Eldjárn Tómasson bætti við marki tveimur mínútum síðar og á 52. mínútu skoraði Aron Freyr aftur af punktinum eftir að hafa fiskað víti sjálfur.

Hartmann Antonsson sá svo um að skora tvö síðustu mörk Árborgar á 60. og 74. mínútu en Hartmann kom inná sem varamaður á 57. mínútu.

Örvar skoraði frá miðju – sögulegar spyrnur hjá bræðrunum
Það var líka líf og fjör á Stokkseyri þar sem heimamenn tóku á móti Elliða. Stokkseyringar fengu vítaspyrnu strax í upphafi leiks en Arilíus Marteinsson skaut boltanum í þverslána. Hann bætti fyrir það skömmu síðar og kom heimamönnum í 1-0. Þórhallur Aron Másson tvöfaldaði svo forskotið og Stokkseyri leiddi 2-0 í hálfleik.

Guðni Þór Þorvaldsson bætti þriðja marki Stokkseyringa við í síðari hálfleik, nýkominn inná sem varamaður, og Þórhallur Aron skoraði svo sitt annað mark og kom Stokkseyri í 4-0. Örvar Hugason innsiglaði síðan 5-0 sigur liðsins með glæsilegu skoti frá miðju.

Örvar átti reyndar stórleik því hann spilaði í marki í fyrri hálfleik og hélt að sjálfsögðu hreinu. Markvörðurinn Magnús Kjartan Eyjólfsson, söngvarinn síkáti, kom svo inná í leikhléi, beint af giggi.

Örvar var reyndar ekki sá eini sem átti eftirminnilegan leik því á lokamínútunni brenndi Andri Marteinsson af vítaspyrnu, með því að skjóta í þverslána. Samkvæmt lauslegri athugun sunnlenska.is er þetta í fyrsta skipti í sögu íslenskrar knattspyrnu sem bræður brenna af vítaspyrnu í sama leiknum í meistaraflokki, með því að skjóta í þverslána.

Upplyfting hjá báðum liðum
Þetta var fyrsti sigur Stokkseyrar í sumar, en með sigrinum lyfti liðið sér upp í 5. sæti B-riðils með 4 stig eftir þrjá leiki. Árborg lyfti sér sér upp í 3. sæti C-riðilsins, en liðið hefur 6 stig að loknum þremur umferðum.

Fyrri greinJónas með sunnudags-hugvekju alla sunnudaga í sumar
Næsta greinHanna áfram á Selfossi – systurnar skrifuðu undir