HSK sækir um Unglingalandsmót 2020

Héraðssambandið Skarphéðinn sendi á dögunum inn umsókn um að halda 23. Unglingalandsmót UMFÍ árið 2020 á Selfossi. Þetta er fjórða árið í röð sem HSK sækir um að halda ULM á Selfossi, í samstarfi við Sveitarfélagið Árborg.

Bæjarráð Árborgar samþykkti fyrir nokkru að óska eftir viðræðum við HSK um að sótt verði um að halda Unglingalandsmót á Selfossi árið 2020. Tillaga um að sækja um mótið var samþykkt samhljóða á stjórnarfundi hjá HSK þann 27. febrúar sl.

Sem kunnugt er hefur átt sér stað mikil uppbyggingu íþróttamannvirkja í sveitarfélaginu, en nýr frjálsíþróttavöllur var m.a. tekinn í notkun á ULM árið 2012. Það er því allt til staðar sem þarf til að halda að nýju glæsilegt mót á Selfossi.

Mótshaldið yrði með svipuðu sniði og haldið af sama metnaði og árið 2012. Sem fyrr er mikill hugur í heimamönnum á Selfossi og hvorki bilbugur á þeim, né forystu HSK að sjá um framkvæmd mótsins.

Rétt er að geta þess að forysta HSK og forráðamenn Sveitarfélagsins Árborgar funduðu með ungmennaráði sveitarfélagsins í vetur. Á fundinum var ákveðið að fá ungmennaráð með okkur í lið strax í umsóknarferlinu, sem er nýlunda innan sambandsins. Ráðið útbjó könnun fyrir grunnskólanemendur sveitarfélagsins. Alls svöruðu 213 krakkar á aldrinum 11 – 16 ára könnuninni. Margt athyglisverð kom þar fram, er varðar keppnisgreinar og afþreyingu, sem nýtast mun okkur í áframhaldandi vinnu við undirbúning mótsins. En áður en lengra er haldið þarf stjórn UMFÍ að ákveða mótsstað. Vonandi verður Selfoss fyrir valinu árið 2020.

Stjórn HSK og bæjarstjórn Sveitarfélagsins Árborgar hefur boðið UMFÍ að koma í heimsókn á Selfoss, þar sem umsóknin yrði kynnt frekar og einnig sú aðstaða sem í boði er fyrir væntanlegt mót.

Þá hefur UMFÍ boðið forystu HSK og sveitarfélagsins að mæta á stjórnarfund UMFÍ næsta föstudag, þar sem umsóknir verða ræddar og kynntar. Gera má ráð fyrir að UMFÍ kunngjöri staðarval mótsins 2020 á unglingalandsmótinu á Egilsstöðum í sumar.

Fyrri greinRangæingar syntu mest í sundkeppni sveitarfélaganna
Næsta greinLiam tryggði sigurinn í blálokin