„Solid allan tímann“

Selfyssingar unnu mikilvægan sigur á HK í Inkasso-deildinni í knattspyrnu á Selfossi í dag. Alfi Conteh skoraði eina mark leiksins.

„Við stýrðum leiknum og sýndum töluvert meiri gæði. Þeir voru duglegir, áttu sína hálfsénsa og allt það. Mér fannst við bara vera solid allan tímann, bara góðir. Misstum boltann aðeins en í gegnum leikinn bara nokkuð góður og héldum okkar plani vel. Við vissum hvað þeir ætluðu að gera og lokuðum vel á það,” sagði Gunnar Borgþórsson, þjálfari Selfoss, í viðtali við fotbolti.net eftir leik.

Selfyssingar voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en fengu ekki mörg færi. Það var ekki fyrr en á 41. mínútu að Selfyssingar skoruðu. Þorsteinn Daníel Þorsteinsson tók þá langt innkast og eftir darraðadans í vítateig HK afgreiddi Alfi Conteh boltann í netið.

Staðan var 1-0 í hálfleik og Selfyssingar héldu áfram að vera þéttir fyrir í seinni hálfleik. HK átti samt ágæt færi inn á milli og boltinn fór bæði í stöng og slá á Selfossmarkinu, en afturfyrir endamörk. HK pressaði nokkuð í blálokin en Selfyssingar börðust vel og hentu sér fyrir alla bolta.

Í uppbótartímanum voru heimamenn svo nær því að skora þegar varnarmaður HK bjargaði á línu eftir að Selfyssingar voru nánast fjórir á móti einum í vítateig HK.

Selfoss er nú í 4. sæti deildarinnar með 10 stig, eins og Fylkir sem er í 3. sætinu, en Fylkir á leik til góða gegn Leikni R

Fyrri greinPerla Ruth framlengir við Selfoss
Næsta greinHrunamenn fengu skell á Blönduósi