Selfoss og Ægir úr leik

Selfyssingar og Ægismenn eru úr leik í Borgunarbikar karla í knattspyrnu en liðin töpuðu leikjum sínum í 16-liða úrslitunum í kvöld.

Ægir, sem leikur í 3. deildinni, fékk Pepsi-deildarlið Víkings R. í heimsókn. Víkingarnir gerðu út um leikinn á tólf mínútna kafla undir lok fyrri hálfleiks þar sem þeir skoruðu þrjú mörk. 0-3 í hálfleik.

Víkingar voru áfram sterkari í seinni hálfleiknum en fengu ekki mörg færi. Einar Ottó Antonsson minnkaði hins vegar muninn þegar tíu mínútur voru eftir með glæsilegu marki og lokatölur urðu 1-3.

Inkasso-deildarlið Selfoss heimsótti Íslandsmeistara FH í bráðfjörugum leik í Kaplakrika. Bæði lið voru búin að eiga fín færi áður en FH komst yfir á 23. mínútu. FH bætti svo við öðru marki á 30. mínútu en Alfi Conteh minnkaði muninn með góðu marki fyrir Selfoss fjórum mínútum síðar.

Staðan var 2-1 í hálfleik en fjörið hélt áfram í síðari hálfleik þar sem Selfyssingar voru síst lakari aðilinn en hvorugu liðinu tókst að skora fleiri mörk.

Fyrri greinVeikur ferðamaður við Svartafoss
Næsta greinVegfarendur hvattir til að fylgjast með veðri og færð