Gott stig í Keflavík

Selfyssingar tylltu sér á toppinn á Inkasso-deildinni í knattspyrnu, um stund að minnsta kosti, þegar liðið gerði 2-2 jafntefli við Keflavík á útivelli í kvöld.

Fyrri hálfleikur var frekar tíðindalítill en Selfyssingar fengu betri færi. Hvorugu liðinu tókst þó að skora og staðan var 0-0 í hálfleik.

Fyrstu tuttugu mínúturnar í síðari hálfleik voru hin besta skemmtun og liðin röðuðu inn mörkunum.

Ingi Rafn Ingibergsson kom Selfyssingum yfir á 50. mínútu eftir góða sókn upp hægri vænginn sem lauk með því að Alfi Conteh lagði boltann fyrir Inga Rafn sem skoraði með hnitmiðuðu skoti. Tveimur mínútum síðar náðu Keflvíkingar að jafna eftir klafs í vítateig Selfoss.

Liðin héldu áfram að sækja og á 63. mínútu sendi Pachu frábæra sendingu innfyrir vörn Keflavíkur þar sem JC Mack tók við boltanum og afgreiddi hann snyrtilega í netið. Aftur varði forysta Selfyssinga stutt, því þremur mínútum síðar jöfnuðu Keflvíkingar með skoti af stuttu færi.

Keflvíkingar sóttu ívið meira þegar leið á leikinn en Selfyssingar vörðust vel og héldu heim með eitt stig í farteskinu. Það dugði til að koma liðinu á toppinn en flest liðin fyrir neðan eiga leik til góða.

Fyrri greinSumarið fer vel af stað í Hekluskógum
Næsta greinKynningarfundur á barna- og unglingastarfi GOS