Öruggur bikarsigur Selfyssinga

Selfoss vann öruggan sigur á 2. deildarliði Augnabliks í 2. umferð Borgunarbikars kvenna í knattspyrnu á Selfossvelli í kvöld.

Lokatölur urðu 5-0 þannig að Selfoss verður í pottinum þegar dregið verður í 16-liða úrslitin í hádeginu á morgun.

Selfyssingar áttu nokkur mjög góð færi í fyrri hálfleik en ísinn var ekki brotinn fyrr en á 29. mínútu að Anna María Friðgeirsdóttir skoraði. Á 36. mínútu átti Barbára Sól Gísladóttir skot í stöng en mínútu síðar kom Magdalena Reimus Selfyssingum í 2-0 með frábæru skoti utan af velli. Á 40. mínútu skoraði Anna María aftur þegar hún fékk langa sendingu fram völlinn og afgreiddi boltann snyrtilega í netið.

Seinni hálfleikurinn var mun rólegri og Selfoss fékk ekki færi fyrr en á 62. mínútu að Eva Lind Elíasdóttir renndi boltanum í autt markið eftir góða sendingu innfyrir frá Önnu Maríu. Þremur mínútum síðar var Anna María nálægt því að kóróna þrennuna en markvörður Augnabliks varði vel.

Það var ekki fyrr en í uppbótartíma að Selfyssingum tókst að koma boltanum í netið í fimmta sinn en Barbára Sól átti þá mjög góða afgreiðslu úr vítateignum, framhjá markverði gestanna.

Fyrri greinFerðamaður á reiðhjóli lést
Næsta greinÖruggt hjá Hamri – Stokkseyri gerði jafntefli