Hamar og Hrunamenn eiga fulltrúa í U15

Gígja Marín og Helga Sóley skoruðu samtals 29 stig í gær. Ljósmynd/KKÍ

Tvær stúlkur úr hinum efnilega 9. flokki kvenna hjá Hamri hafa verið valdar í lokahóp 15 ára landsliðs Íslands í körfubolta. Hrunamenn eiga einnig fulltrúa í liðinu.

Stúlkurnar frá Hveragerði eru hinar efnilegu Gígja Marín Þorsteinsdóttir og Helga Sóley Heiðarsdóttir en þær eru báðar uppaldar hjá Hamri. Það er von körfuknattleiksdeildar Hamars að aðrir yngri flokka iðkendur í Hveragerði taki sér þær Gígju og Helgu til fyrirmyndar og sjái hvaða árangri er hægt að ná með eljusemi og miklum áhuga.

Hrunamenn eiga einnig fulltrúa í leikmannahópi U15 landsliðsins en það er bakvörðurinn Perla María Karlsdóttir. Perla er fjölhæfur leikmaður og hefur gegnt lykilhlutverki með liði Hrunamanna í vetur. Hún er mjög samviskusöm hvað varðar æfingasókn og hefur verið dugleg að æfa aukalega.

Stelpurnar munu fara með 15 ára landsliði Íslands til keppni í Kaupmannahöfn dagana 16.-18. júní. KKÍ sendir nú í fyrsta sinn tvö lið á þetta mót, þannig að 18 leikmenn voru valdir til þess að leika með liðunum tveimur. Vanalega hafa tólf leikmenn verið valdir og spilað sem eitt lið.

Þjálfarar U15 ára liðs Íslands eru bæði úr uppsveitum Árnessýslu, Árni Þór Hilmarsson á Flúðum og honum til aðstoðar er Heiðrún Kristmundsdóttir frá Haga í Gnúpverjahreppi.

Fyrri greinHádegisleiðsögn og beitt í bala
Næsta greinÓásættanleg staða fyrir samfélagið – Myndband