Selfyssingum spáð 5. sæti

Þjálfarar og fyrirliðar liðanna í Inkasso-deild karla í knattspyrnu spá Selfyssingum 5. sætinu í deildinni í sumar. Keppni í Inkasso-deildinni hefst næsta föstudag en Selfyssingar fá þá nýliða ÍR í heimsókn.

Selfoss lenti í 8. sæti í deildinni í fyrra en þeir vínrauðu gerðu samtals tíu jafntefli í deildinni. Gengi liðsins var frábært í bikarkeppninni þar sem Selfyssingar fóru í undanúrslit.

Litlar breytingar hafa verið á leikmannahópi liðsins frá því í fyrra. Liðið hefur fengið Alfi Conteh Lacalle og Elvar Inga Vignisson til þess að skerpa á sóknarleiknum, Hafþór Þrastarson er kominn aftur í vörnina og Guðjón Orri Sigurjónsson er nýr markvörður liðsins.

Vignir Jóhannesson hefur staðið í marki Selfoss undanfarin ár, en er nú kominn í FH. Arnór Gauti Ragnarsson, sem var lánsmaður í fyrra frá Breiðablik, leikur nú með ÍBV og Teo Tirado fór aftur til Spánar síðsumars í fyrra. Þá hefur Richard Sæþór Sigurðsson ekki æft með liðinu á undirbúningstímabilinu.

„Þetta kemur mér aðeins á óvart, en skemmtilega á óvart,“ segir Gunnar Rafn Borgþórsson þjálfari Selfyssinga um spána í samtali við fotbolti.net.

„Okkur var spáð falli á einhverjum miðlum í fyrra og neðarlega annarsstaðar. Okkur hefur hinsvegar gengið ágætlega í vetur og hópurinn er þéttur, skemmtilegur og leggur gríðarlega mikið á sig þó svo að hann sé lítill. Við þurfum fyrst og fremst að halda áfram að vinna saman, liðsheildin og hugarfarið hefur verið eitt af okkar sterkustu vopnum.“

„Við gerðum mikið af jafnteflum í fyrra og töpuðum stigum að óþarfa í nokkrum leikjum. Við töpuðum fáum leikjum í fyrra og þurfum að halda því þannig en breyta jafnteflunum yfir í sigra,“ segir Gunnar ennfremur.

Spá fotbolti.net

Fyrri greinGummi Tóta skoraði geggjað mark – Myndband
Næsta greinSamstarfsfundir um greiningu á ljósmyndum