Árborg og Ægir áfram í bikarnum

Lið Árborgar og Ægis eru komin í 32-liða úrslit Borgunarbikar karla í knattspyrnu en Hamar, KFR og Stokkseyri eru úr leik.

Fjörið í dag byrjaði á Selfossvelli þar sem 4. deildarlið Árborgar og Hamars mættust í nágrannaslag. Ekkert var skorað í venjulegum leiktíma og framlengingin var sömuleiðis markalaus. Leikurinn var þó alls ekki tíðindalítill því tvö rauð spjöld fóru á loft. Árborgarinn Daníel Ingi Birgisson fékk sitt annað gula spjald á 75. mínútu og Sigurður Andri Jóhannsson, Hamri, var einnig sendur í sturtu þegar framlengingin var tæplega hálfnuð.

Það þurfti því vítaspyrnukeppni til þess að knýja fram úrslit. Þar reyndist Gunnar Már Hallgrímsson, markvörður Árborgar, hetjan því hann varði tvær spyrnur Hamarsmanna. Aron Freyr Margeirsson, Árni Páll Hafþórsson, Adam Örn Sveinbjörnsson og Ingvi Rafn Óskarsson skoruðu úr spyrnum Árborgar en fyrir Hamar skoruðu Örlaugur Magnússon, Tómas Hassing og Sam Malsom. Lokatölur 4-3.

Dramatík í vítakeppninni
Mjög athyglisvert atvik átti sér stað í vítakeppninni þegar Árni Páll skoraði úr annarri spyrnu Árborgar. Boltinn fór í markið og í gegnum gat á marknetinu en hvorki dómari eða aðstoðardómari við endalínuna sáu boltann fara inn. Þeir dæmdu því ekki mark, en annar aðstoðardómari leiðrétti svo þann dóm eftir að Hvergerðingar höfðu tekið aðra spyrnu sína. Hamarsmenn voru ekki sáttir við að dómarinn skyldi breyta ákvörðun sinni og mótmæltu kröftuglega að vítakeppninni lokinni, og uppskar Hrannar Einarsson þá rautt spjald.

Ægir skorað tvö og hélt hreinu
Ægir komst yfir strax á 7. mínútu gegn Álftanesi þegar liðin mættust á Bessastaðavelli. Ægir leikur í 3. deild en Álftanes í 4. deild. Gunnar Bent Helgason kom boltanum í netið og reyndist það eina mark fyrri hálfleiks. Þrátt fyrir hörkubaráttu á báða bóga tókst liðunum ekki að skora í síðari hálfleik, allt þar til á sjöttu mínútu uppbótartíma að Gunnar Orri Guðmundsson bætti við öðru marki fyrir Ægi. Lokatölur 0-2.

KFR og Stokkseyri úr leik
Rangæingar, sem spila í 4. deild, töpuðu 3-0 á útivelli gegn Berserkjum sem leika í 3. deildinni. KFR missti mann af velli með rautt spjald á 25. mínútu og manni fleiri áttu Berserkir ekki í neinum vandræðum. Staðan var 1-0 í hálfleik en heimamenn bættu við tveimur mörkum í síðari hluta seinni hálfleiks. Lokatölur 3-0.

Síðasti leikur dagsins fór fram á Selfossvelli undir kvöld, en þar tók 4. deildarlið Stokkseyrar á móti Leikni R. sem leikur í Inkasso-deildinni. Leiknir komst yfir strax á 3. mínútu og gestirnir bættu svo við öðru marki á 35. mínútu, 0-2 í hálfleik. Leiknismenn voru áfram sterkari í síðari hálfleiknum, skoruðu þá þrjú mörk til viðbótar og sigruðu 0-5.

Fyrri greinMilljónamiði á Arnbergi
Næsta greinTveimur kajakræðurum bjargað úr sjó við Þjórsárós